Það er skemmtilegt og skapandi að setja saman vísu. Það reynir á orðanotkun og útsjónarsemi svo ekki sé talað um hugmyndaflug.
Vísurnar í Grallarabókunum eru samdar í ferskeyttum hætti (ferskeytla), en hann er talinn elstur rímnahátta og jafnframt sá algengasti.
Í hefðbundinni ferskeytlu eru sjö atkvæði í fyrstu og þriðju línu en sex atkvæði í annarri og fjórðu línu. Þar eru otaðir stuðlar, höfuðstafir og rím.
Hér að neðan er dæmi um ferskeytta vísu úr bókinni Í jólaskapi:
Skuggalegan skýjahjúp
skærir geislar kljúfa.
Signir yfir sporin djúp
snædrífan hin ljúfa.
Í ferskeyttri vísu eru fjórar ljóðlínur, stundum einnig kallaðar braglínur eða vísuorð.
Hver ljóðlína inniheldur svo bragliði, öðru nafni kveður, sem geta verið eitt, tvö eða þrjú atkvæði.
Farið / er í / fjöru / leit,
fundið / margt í / leyni.
Krabbi / einn með / kló sem / beit
kom þar / undan / steini.
Bragliðir eru mis áhersluþungir og eru til skiptis hákveður (mikill áhersluþungi) og lágkveður (lítill áhersluþungi). Allar ljóðlínur byrja á hákveðu.
Stuðlar og höfuðstafir eru kallaðir einu nafni ljóðstafir og þeir tengja tvær línur saman. Stuðlar eru upphafsstafir orða. Þeir eru tveir í fyrri línunni, annar í fyrsta braglið og hinn í þriðja braglið. Þriðji stuðullinn er svo í fyrsta braglið næstu ljóðlínu og kallast höfuðstafur.
Allir sérhljóðar stuðla saman (a, á, e, i, í, o, ó, u, ú, y, ý, æ, ö)
Þannig getur ó stuðlað við ú o.s.frv. eins og sést í þessum fyrriparti úr bókinni Ævintýri í Eyjum:
Ótal pysjur, úfinn sær,
ævintýri gerast.
Um stafinn s hafa löngum gilt sérstakar reglur. Þeir hörðustu fylgja þessum reglum, en margir hagyrðingar eru farnir að líta fram hjá þeim og nota bara s með s. En annars eru reglurnar þessar: Ef s er notaður sem stuðull og næsti stafur á eftir honum er k, l, m, n, p eða t, þá verður svo líka að vera um orðin sem stuðlað er við. Þetta heita gnýstuðlar (sk, sl, sm, sn, sp eða st). Í efstu vísunni er þessum reglum fylgt í fyrri parti en í seinni parti er eingöngu notað s með s.
Í eftirfarandi vísu úr bókinni Ævintýri í Eyjum eru stuðlar og höfuðstafir feitletraðir.
Kostulega kynjamynd,
kanna hér í streymi.
Sterkur af sér stendur vind,
stærsti fíll í heimi.
Hér er notað endarím sem í þessu tilfelli er svokallað víxlrím. Þar ríma saman síðustu orð fyrstu og þriðju línu annars vegar (mynd/vind) og annarar og fjórðu línu hins vegar (streymi/heimi).