Selma Hrönn Maríudóttir hefur hlotið eftirfarandi verðlaun og styrki fyrir verkefnið, sem er ómetanlegur stuðningur við þróun þess.
Verðlaun fyrir besta barnaefnið á netinu
Hugmyndasmiðir tveggja barnavefja hlutu verðlaun SAFT fyrir besta barnaefnið á netinu árið 2013. Selma fékk verðlaun fyrir vefinn grallarar.is og deildi verðlaununum með Önnu Margréti Ólafsdóttur leikskólastjóra sem fékk verðlaun fyrir vefinn paxel123.com
Í umsögn dómnefndar um Grallarasögur segir m.a., að verkefnið sé heildstætt með margvíslega notkunarmöguleika og mikla þróunarmöguleika í margar áttir. Það sé skemmtilegt, fræðandi og krefjandi og tali beint til aldursflokksins sem það sé hugsað fyrir. Hönnun og myndefni sé í stíl við innihaldið, það sé til fyrirmyndar að bakland efnisins sé skýrt og traust, þ.e. fjölskylda grallaranna.
SAFT er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi og eru verðlaunin veitt í tengslum við sameiginlegt átak netöryggismiðstöðva í Evrópu til að vekja athygli á gæðaefni á netinu fyrir börn og unglinga.
Frá vinstri: Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra,
Selma Hrönn Maríudóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir, fulltrúi SAFT.
Bókagjafir til barna
Grallarabækurnar hafa í gegnum tíðina ratað í marga gjafapakka þar sem félög, skólar og fleiri góðir aðilar hafa keypt bækurnar til gjafa við ýmis tækifæri.
Styrkir:
2011 – Styrkur úr Þróunarsjóði námsgagna.
2011 – Styrkur frá Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar.
2008 – Styrkur frá Menningarráði Suðurnesja.
2006 – Frumkvöðlastyrkur frá Sandgerðisbæ.
Samstarf við Reykjanes jarðvang / Reykjanes Geopark
Eitt af verkefnum jarðvangsins er að kynna það sem Reykjanesskaginn hefur uppá að bjóða fyrir yngstu kynslóðinni. Hugmyndin var að yngstu íbúar og ferðamenn á þessu svæði fengju tækifæri til að kynnast jarðfræði, landafræði og staðháttum svæðisins á skemmtilegan hátt í gegnum barnabókmenntir. Reykjanes jarðvangur samdi því við Selmu Hrönn Maríudóttur um útgáfu á bók sem ætluð er fyrir börn á aldrinum 6 – 10 ára og gerist á Reykjanesskaganum.
Jarðvangurinn styrkti verkefnið með því að gefa bækur í alla leik- og grunnskóla á Suðurnesjum og voru fyrstu eintökin afhent í Grunnskólanum í Sandgerði við upphaf jarðvangsviku á Reykjanesi.