5. febrúar 2013
Í dag, á alþjóðlega netöryggisdeginum, hlaut Selma Hrönn Maríudóttir, höfundur Grallarasagna, verðlaun í samkeppni um besta barnaefnið á Netinu. Í umsögn dómnefndar um Grallarasögur segir m.a., að verkefnið sé heildstætt með margvíslega notkunarmöguleika og mikla þróunarmöguleika í margar áttir. Það sé skemmtilegt, fræðandi og krefjandi og tali beint til aldursflokksins sem það sé hugsað fyrir. Hönnun og myndefni sé í stíl við innihaldið, það sé til fyrirmyndar að bakland efnisins sé skýrt og traust, þ.e. fjölskylda grallaranna.
Evrópusamkeppni um besta barna- og unglingaefnið á Netinu er sameiginlegt átak netöryggismiðstöðva í Evrópu og þeirra þjóða sem starfa samkvæmt netöryggisáætlun Evrópusambandsins. Tilgangur samkeppninnar er að vekja athygli á gæðaefni fyrir 6-18 ára börn og unglinga sem er nú þegar til staðar á Netinu. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti verðlaunin, en auk Selmu hlaut Anna Margrét Ólafsdóttir verðlaun fyrir verkefnið Paxel123.com. Samkeppni á landsvísu fer fram í 14 löndum og í framhaldi fer fram Evrópusamkeppni þar sem sigurvegararnir úr landskeppnunum etja kappi.