Selma Hrönn Maríudóttir er höfundur Grallarasagna. Hún semur texta og vísur í bækurnar um Glingló, Dabba og Rex og sér um hönnun og uppsetningu á vefnum. Hún teiknar einnig allar myndir af gröllurunum frá og með sjöttu bókinni, en félagarnir fengu nýtt útlit árið 2014.
Selma er rafeindavirki að mennt og hefur einnig stundað nám í kerfisfræði og forritun. Hún starfar sem vefhönnuður í fjölskyldufyrirtækinu Tónaflóði sem hún á og rekur ásamt manni sínum Smára Valtý Sæbjörnssyni. Auk þess að semja barnaefni í frístundum hefur Selma fengist við lagasmíðar og textagerð. Selma er meðlimur í Rithöfundasambandi Íslands og STEFi, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar.
Grallararnir Glingló, Dabbi og Rex
Grallararnir þrír, kisurnar Glingló og Dabbi og hundurinn Rex, eiga sér fyrirmyndir í raunveruleikanum. Fyrirmyndirnar voru gæludýr Selmu og fjölskyldu og voru uppspretta ótal hugmynda og uppátækja í hátt á annan áratug. Glingló náði 14 ára aldri, Dabbi varð 19 ára og Rex 11 ára. Þeirra er sárt saknað.
Selma ásamt Gröllurunum í lifanda lífi og fyrirmyndunum að sögupersónum bókanna, Glingló, Dabba og Rex.
Gabríel og Mikael synir höfundar, ólust upp með Gröllurunum og hafa tekið þátt í verkefninu með ýmsum hætti, meðal annars sem hjálparkokkar í uppskriftahlutanum.
Piparkökuuppskrift Grallaranna hefur verið mikið sótt
í gegnum árin.
Smári Valtýr Sæbjörnsson matreiðslumaður er pabbi grallaranna og hann sér um uppskriftahlutann. Smári starfaði sem matreiðslumaður í tvo áratugi. Hann vann síðast sem matreiðslumaður hjá Nordica Hotel en starfar nú í fjölskyldufyrirtækinu Tónaflóði.