Sagan á bak við grallarana þrjá:
Glingló, Dabba og Rex
– þeir eru til í raun og veru og eiga heima í Sandgerði
Út er komin barnabókin Glingló, Dabbi og Rex – Sprellað í sveitinni. Þetta er fjórða bókin í bókaflokknum Grallarasögur þar sem sögupersónur, kisurnar Glingló og Dabbi og hundurinn Rex, fræða unga lesendur um raunverulega ævintýrastaði og gefa ímyndunaraflinu um leið lausan tauminn.
Selma Hrönn Maríudóttir vefhönnuður og rafeindavirki er höfundur grallaranna. Hún semur vísur og texta í bókunum og sér um hönnun og uppsetningu á vefnum grallarar.is sem styður við bækurnar. Teikningar eru eftir Brynhildi Jenný Bjarnadóttur sem lokið hefur meistaranámi í teiknimyndagerð.
Alvöru grallarar
Grallararnir eru rammíslenskir og eiga sér lifandi fyrirmyndir í Sandgerði, en persónur byggja á gæludýrum höfundar. Kisurnar Glingló og Dabbi sem nú eru 12 ára gamlar og hundurinn Rex sem er 4 ára hafa verið uppspretta ótal hugmynda og uppátækja í gegnum árin.
Sprellað í sveitinni
Í þessari bók sprella vinirnir í sveitinni. Glingló hrekkir bola og telur sig sjá draug í fjósinu. Dabbi skoðar hamingjuegg og smakkar ylvolga mjólk beint úr kúnni. Rex leikur listir á heyrúllu og sýnir snilldartakta í réttunum. Og ævintýrin eru á hverju strái.
Vísur og texti
Bækurnar eru ætlaðar börnum á aldrinum 2-6 ára. Sögurnar eru í vísnaformi og vel til þess fallnar að auka orðaforða barna en einnig sagðar á einföldu máli fyrir yngstu lesendurna.
Heimasíða og ókeypis afþreying
Félagarnir eiga heimasíðu sem heitir grallarar.is og þar má finna ýmsa skemmtilega leiki, vísnahorn, litabók, uppskriftir og fleira.
Ævintýri fyrir fjölskylduna
Það er auðvelt að rata í spennandi ævintýri og kostar yfirleitt lítið nema úthaldið. Tilgangurinn með bókunum er m.a. að benda á skemmtilega afþreyingu fyrir grallara á öllum aldri.
Bókin fæst í netverslun okkar auk þess sem hún er fáanleg í helstu bókabúðum landsins.