Morgunblaðið 8. febrúar 2013
„Þetta eru verðlaun sem eru veitt í tengslum við sameiginlegt átak netöryggismiðstöðva í Evrópu til að vekja athygli á gæðaefni á netinu fyrir börn og unglinga,“ sagði Selma Hrönn Maríudóttir, sem hlaut í vikunni verðlaun SAFT fyrir besta barnaefnið á netinu árið 2013. SAFT er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi.
Selma fékk verðlaunin fyrir vefsíðuna grallarar.is, sem byggist á Grallarabókum Selmu. „Vefurinn er algjörlega laus við auglýsingar og annað efni sem gæti leitt börnin inn á vafasamar vefsíður,“ sagði Selma.
Sögur Selmu, sem eru með fræðsluívafi, fjalla um kisurnar Glingló og Dabba og hundinn Rex. Sögurnar gerast víðsvegar um landið og er markmið Selmu að láta eina sögu gerast í hverjum landshluta. Grallararnir hafa heimsótt Sandgerði, Vestmannaeyjar og fleiri staði en nýjasta sagan, Hopp og hí í Hólminum, gerist í Stykkishólmi. Þar skoða sögupersónurnar meðal annars Súgandisey og vitann ofan á henni, sem er meira en 100 ára gamall eins og kemur fram í máli einnar af persónum Selmu.
Smáforrit í vefverslun Apple
Selma hefur ekki látið sér nægja að gefa út bækur og setja upp vef á íslensku í tengslum við bækurnar. Í fyrra gaf hún út smáforrit á ensku byggt á bókunum, en íslensk útgáfa af smáforritinu er í vinnslu. Grallararnir kallast á ensku „Perky Pranksters.“ Selma ákvað ásamt þýðanda að ekki væri hægt að nota nafnið Grallarar erlendis því hún vildi að nafnið væri jafnlýsandi á ensku og það er á íslensku.
Búið er að gefa út fimm bækur og sú sjötta er í vinnslu. Af þeim fimm bókum sem komnar eru út á íslensku hafa fjórar verið þýddar á táknmál.
GRALLARARNIR LENGI Í VINNSLU HJÁ SELMU
Kisurnar kveikjan að bókunum
Grallararnir þrír, kisurnar Glingló og Dabbi og hundurinn Rex, eiga sér fyrirmyndir í raunveruleikanum. Selma fylgdist grannt með köttunum sínum tveimur og þótti hegðun þeirra áhugaverð. Árið 2003 þegar kettirnir voru fimm ára gamlir setti Selma sér það markmið að eftir tíu ár ættu Grallararnir að vera komnir á gott skrið. „Það mætti því segja að þessi tímarammi minn hafi staðist ágætlega. Verðlaunin frá SAFT og útgáfa smáforritsins í fyrra benda sterklega til þess að ég sé að minnsta kosti á réttri leið með þetta,“ sagði Selma Hrönn. Sjöttu bókarinnar um Grallarana er að vænta í október en Selma vildi ekki segja hvert sögusviðið væri. „Nei, það er leyndó,“ sagði hún og hló.