Fréttablaðið 21. nóvember 2011
Selma Hrönn Maríudóttir: Semur sögur um eigin ketti og hund
LJÓSLIFANDI SÖGUHETJUR „Nú eru Glingló og Dabbi búin að taka tvo kettlinga í fóstur
svo það er engin hætta á að ég verði uppiskroppa með söguefni á næstunni,“
segir Selma Hrönn Maríudóttir sem hér er með Glingló.
Auk nýju bókarinnar eru komnar út vinnubækur sem kennararnir Erla B. Rúnarsdóttir og Margrét A. Sigurvinsdóttir hafa útbúið og auka notagildi bókanna í skólastarfi. „Svo eru ýmsar hugmyndir í undirbúningi,“ segir Selma. „Þetta vindur endalaust upp á sig og ég held við séum bara rétt að byrja.“
|
Selma er rafeindavirki að mennt og hefur einnig stundað nám í kerfisfræði og forritun. Hún starfar sem vefhönnuður í fjölskyldufyrirtækinu Tónaflóði sem hún á og rekur ásamt manni sínum, Smára V. Sæbjörnssyni. Saman eiga þau tvö börn auk þess sem Smári á þrjú börn frá fyrra sambandi. Það er því enginn skortur á þakklátum áheyrendum til að prófa sögurnar á. „Strákarnir eru alltaf með í öllu ferlinu,“ segir Selma. „Auk þess ganga sögurnar líka út á að kynna ákveðna staði á landinu þannig að við í fjölskyldunni erum dugleg við að fara á staðina og upplifa ævintýrin úr bókunum á meðan þær eru að verða til. Nú eru Glingló og Dabbi búin að taka tvo kettlinga í fóstur svo það er engin hætta á að ég verði uppiskroppa með söguefni á næstunni. Hér á heimilinu eru fjórir kettir, einn hundur, hellingur af fiskum og fullt af börnum þannig að ég þarf ekkert að óttast það að fá ekki hugmyndir að fleiri bókum.“
Á vefsíðunni grallarar.is er hægt að gerast áskrifandi að bókunum til að missa ekki af neinu. Þar er einnig að finna ýmsa leiki, uppskriftir, táknmálsútgáfur sagnanna og fleira og fleira. „Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel,“ segir Selma. „Við höfum fengið styrki frá Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, Menningarráði Suðurnesja og Þróunarsjóði námsgagna. Æ fleiri kennarar nýta sér bækurnar við kennslu og Glingló, Dabbi og Rex hafa sjaldan verið hressari en í nýju bókinni Hopp og hí í Hólminum.“
fridrikab/frettabladid.is