Morgunblaðið 2. nóvember 2006
Öll börnin á leikskólanum Sólborgu í Sandgerði fengu á dögunum að gjöf ævintýrabækur um kettina Glingló og Dabba í jólaskapi. Eru þetta myndskreyttar sögur og vísur eftir Selmu Hrönn Maríudóttur en teikningarnar eru eftir Brynhildi Jenný Bjarnadóttur.
Við sama tækifæri var opnaður vefurinn grallararnir.is. Þar má finna ýmsa skemmtilega leiki, vísnahorn, litabók, uppskriftir og margt fleira sem getur orðið skemmtileg afþreying fyrir litla grallara. Selma Hrönn kom sjálf færandi hendi í leikskólann og á myndinni er hún ásamt Jórunni Guðmundsdóttur leikskólastjóra og nokkrum börnum úr skólanum.