Selma Hrönn Maríudóttir er höfundur Grallarasagna. Hún semur texta og
vísur í bækurnar um Glingló, Dabba og Rex og sér um hönnun og uppsetningu á vefnum. Selma er dóttir Gylfa Ægissonar frá Siglufirði og Kristínar Maríu Jónsdóttur frá Akureyri. Hún býr nú í Sandgerði en ólst að mestu upp á Siglufirði og í Vestmannaeyjum.
Selma er rafeindavirki að mennt og hefur einnig stundað nám í kerfisfræði og forritun. Hún starfar sem vefhönnuður í fjölskyldufyrirtækinu Tónaflóði sem hún á og rekur ásamt manni sínum Smára V. Sæbjörnssyni. Auk þess að semja barnaefni í frístundum hefur Selma fengist við
lagasmíðar og textagerð. Selma er meðlimur í Rithöfundasambandi Íslands og STEFi, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar.
Grallararnir Glingló, Dabbi og Rex
Kisurnar Glingló og Dabbi sem nú eru 14 ára gamlar hafa búið hjá Selmu og fjölskyldu síðan þær voru kettlingar og verið uppspretta ótal hugmynda og uppátækja í gegnum árin. Fyrir sex árum eignaðist fjölskyldan hundinn Rex sem féll vel í hópinn og er nú orðinn sögupersóna ásamt grallarakisunum.
Smári Valtýr Sæbjörnsson matreiðslumaður er pabbi grallaranna og hann sér um
uppskriftahlutann. Smári er sonur
Sæbjörns Jónssonar heitins trompetleikara frá Stykkishólmi og Valgerðar Valtýsdóttur frá Stykkishólmi. Smári starfaði sem matreiðslumaður í tvo áratugi. Hann vann síðast sem matreiðslumaður hjá Nordica Hotel en starfar nú í fjölskyldufyrirtækinu Tónaflóði.